Einstaklingsmeðferð

Einstaklingsmeðferð getur hvort tveggja farið fram hjá sálfræðingi eða fjölskyldufræðingi. Í slíkri meðferð er unnið úr ýmsum vanda, til að mynda depurð, kvíða, kulnun, einmanaleika, sjálfmyndarvanda, áföllum úr æsku eða annars konar persónulegum erfiðleikum. Lausnir eru ávallt fundnar í nánu samráði og samtali við skjólstæðing og gagnreyndar aðferðir nýttar við úrvinnsluna.

Meðferð miðar að því að bæta líðan skjólstæðings, efla hann í daglegu lífi og auka þekkingu á eigin tilfinningalífi. Markmiðið er að finna lausnir sem henta hverju sinni og ná árangri á því sviði sem einstaklingurinn óskar. Þó er ekki nauðsynlegt að glíma við alvarlegan vanda til að hægt sé að hafa gagn af einstaklingsmeðferð. Skjólstæðingar fá gjarnan með sér verkefni milli tíma en slíkt er ávallt í samvinnu viðkomandi og meðferðaraðila.

Hjóna- og Parameðferð

Í hjóna- og parameðferð er unnið markvisst með samskipti og traust innan sambandsins. Slík meðferð getur tekið á ýmsum áskorunum, s.s. áföllum í sambandi (t.d. fósturmissi), minnkandi ánægju í hjónabandi, framhjáhaldi, ósætti af einhverju tagi eða skilnaði.
Mögulegt er að bæta samskipti, auka nánd, virðingu og traust í samböndum. Þá er unnið með styrkleika einstaklinganna hvors fyrir sig og í kjölfarið styrkleika sambandsins. Oft er hægt að bæta samskipti í samböndum með góðri samvinnu parsins. Ef ekki er grundvöllur fyrir frekari sambúð er hægt að stuðla að farsælu skilnaðarferli. Góð samvinna og samkomulag eftir skilnað er mikilvægt svo allir meðlimir fjölskyldunnar geti aðlagast breyttu fyrirkomulagi og lífsmynstri.

Fjölskyldumeðferð

Fjölskyldumeðferð gengur út á að koma á ánægjulegri og áreynslulausari samskiptum innan fjölskyldunnar. Meðferðin miðar að því að auka færni fjölskyndunnar í samskiptum og finna leiðir til að bæta líða allra í fjölskyndunni. Til þess er oft nauðsynlegt að leysa upp neikvæð samskiptamynstur og vinna með styrkleika fjölskyldunnar, hvort tveggja barna og fullorðinna.

Uppeldisráðgjöf

Uppeldisráðgjafar greina orsakir hegðunarerfileika og benda á lausnir, þeir auka einnig skilning á mikilvægi tilfinningastjórnunar foreldra og gildi samtals foreldra og barna. Þá er unnið með áskoranir sem börn mæta í daglegu lífi, t.d. skólaforðun, skjátíma, tilfinningastjórn, vantraust, áföll, skilnað o.fl.
Ekki þarf alvarleg vandamál til að hægt sé að hafa gagn af samtali um málefni fjölskyldunnar og efla foreldra í sínum mikilvægu og krefjandi verkefnum. Lengi er hægt að bæta samskipti og vinna að úrbót smávægilegra þátta sem trufla jafnvægi á heimili.

Handleiðsla fyrir fagfólk og stjórnendur

Í Strandgötu er boðið upp á handleiðslu fyrir fagfólk og stjórnendur. Í því felst samtal um líðan viðkomandi fagaðila, hvort tveggja innan og utan vinnustaðar. Eigin upplifun í starfi skipar ríkan sess í handleiðslunni en þar geta samskipti við skjólstæðinga og samstarfsfólk skipt miklu. Þá eru faglegir þættir og metnaður til umræðu, hvort nauðsynlegt sé að endurskipuleggja einhverja þætti starfsins eða forgangsraða öðruvísi.

Persónuleg líðan fagaðilans er ekki síður mikilvæg en þeir þættir sem snúa beint að starfinu. Jafnvægi milli vinnu og einkalífs er þýðingarmikið en reynst getur flókið að ná því fram. Þá er gott að geta rætt við handleiðara um hvað sé til ráða.